Ótextað íslenskt efni

Ég hef verið að undrast það í langan tíma hvers vegna íslenskt sjónvarpsefni er ekki textað. Nú eru allar erlendar bíómyndir textaðar og allir erlendir þættir. En þegar maður horfir á íslenskt efni þá er greinilega ekki talið nauðsynlegt að texta það. Fjöldi fólks er heyrarskert þó það sé ekki alveg heyrnarlaust. Má þar nefna mikinn fjölda eldra fólks og svo þá sem hafa arfgenga heyrnarskerðingu sem byrjar fyrr um ævina. Fólk í þáttum og bíómyndum á það til að muldra eða tala lágt og þá fer alveg fram hjá heyrnarskertum hvað verið er að segja. Ég er ein af þeim sem heyri svolítið illa þó svo að það sé ekki mjög áberandi og mér gengur oft illa að fylgjast með söguþræði í íslensku efni. Í raun finnst mér alveg óþolandi að íslenskt efni sé ekki textað. Ég skil ekki hvers vegna að það er ekki jafn sjálfsagt að texta íslenskt efni eins og erlent. Nú veit ég ekki hvort það sé einhver sértök ástæða fyrir því að þetta sé ekki gert en það væri mikið til bóta ef þeir sem hafa með þetta að gera tækju þetta til skoðunar.


Undirbúum betri tíð í viðskiptum

Mig langar til að hvetja fyrirtæki til að nota tímann núna í Covid og undirbúa sig fyrir betri tíð með því að vinna að markaðsmálum. Þegar byrjað verður að bólusetja mun lífið smá saman færast í eðlilegt horf og þá er gott að vera tilbúinn með ýmiskonar markaðsefni.

Í markaðfræðum er talað um að þau fyrirtæki sem auglýsa í niðursveiflu og passa að vera sýnileg með öðrum hætti munu standa upp úr þegar land rís á ný.

Ég sem hef unnið við markaðsmál og auglýsingagerð um áratuga skeið er sammála þessu og hef séð með eigin augum hvað kynningarmál skipta miklu máli. Ég er eigandi að auglýsingafyrirtækjunum grafika.is og motif.is auglýsingavörur.

Mér dettur til dæmis í hug ein saga. Einu sinni var ég að reyna að sannfæra fyrirtæki um að auglýsa sem ekki hafði gert mikið af því og taldi að með því væri verið að henda peningum út um gluggann. En staðan hjá fyrirtækinu var þannig þá að afar lítið var að gera. Þau voru staðsett í úthverfi og ekki mikil bílaumferð.

Ég taldi þau á að birta nokkrar heilsíður í dagblöðum og þau féllust á það með semingi. Daginn sem auglýsingin birtist sáu þau út um gluggann, bílalestina birtast og keyra til þeirra og þann dag var brjálað að gera. Þetta átti sér auðvitað ekki stað í samskonar ástandi og við erum í núna en sýnir mátt kynningarstarfseminnar.

Nú er það þannig að mörgum fyrirtækjum gengur bara bísna vel þrátt fyrir Covid en önnur sem byggja afkomu sína meira á ferðamönnum kannski síður. En ég vil bara hvetja fólk til að þrauka til vors. Útbúa kynningarefni í samvinnu við ykkar auglýsingafólk svo sem vefauglýsingar og bæklinga, laga heimasíðuna, kaupa auglýsingavörur til að gefa eða selja ferðamönnum, nota Facebook auglýsingar og fleira. Þá verðið þið tilbúin þegar allt lagast aftur.

Verum jákvæð og bjartsýn það borgar sig.

 


Þurfti að bíða í einn og hálfan sólarhring

Aðfararnótt 9. september vaknaði ég með sárar hvalir í maga og kallaði til neyðarlækni. Hann ákvað að best væri að senda mig með sjúkrabíl á bráðavaktina. Þar beið ég frá kl 8 á sunnudagsmorgni og þar til kl. 6 á mánudagskvöldi þegar ég loks komst í uppskurð sem þá var orðin bráðaaðgerð.

Á þessum tíma talaði við mig fullt af læknum og öðru starfsfólki sem sífellt var að reyna að meta hversu alvarlegur magaverkurinn væri og hvort það væri ástæða til að fara í myndatöku. Það var talsvert atriði hjá þeim að vera ekki að senda fólk í myndatöku að óþörfu þó það lægi fyrir frá upphafi að ekki var auðvelt að skilgreina magaverkinn út frá venjulegum atriðum.

Nýtt og nýtt fólk kom að málinu, blóðprufurnar týndust og það uppgötvaðist ekki fyrr enn eftir marga tíma. Fólkið hafði greinilega allt of mikið að gera. Skurðlæknir ætlaði að tala við mig kl. 8 um morguninn en kom ekki fyrr en kl.15

Þegar ég var farin að gubba svörtu komst hreyfing á málin. Ég fór í myndatöku. Vandamálið sem var uppásnúin görn og sýking kom í ljós og ég var send með sjúkrabíl á landspítalann þar sem skurðaðgerð var gerð klukkutíma síðar eða kl. 7 á mánudagskvöldinu enda mátti víst ekki bíða lengur með þetta.

Ég er afar þakklát lækninum sem gerði aðgerðina og starfsfólkinu á landsspítalanum sem tók á móti mér. Þetta var allt frábært fagfólk, elskulegt og fært á sínu sviði.

Hins vegar hef ég verið hugsi yfir ástandinu á bráðavaktini. Fólkið þar náði alls ekki að sinna sjúklingunum þó svo að allir væru elskulegir og af vilja gerðir. Í mínu tilviki hefði getað farið illa.

Kannski þarf að hugsa hlutina upp á nýtt

 


mbl.is Álagið eiginlega ómannlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband