Færsluflokkur: Kvikmyndir
19.12.2022 | 15:47
Ótextað íslenskt efni
Ég hef verið að undrast það í langan tíma hvers vegna íslenskt sjónvarpsefni er ekki textað. Nú eru allar erlendar bíómyndir textaðar og allir erlendir þættir. En þegar maður horfir á íslenskt efni þá er greinilega ekki talið nauðsynlegt að texta það. Fjöldi fólks er heyrarskert þó það sé ekki alveg heyrnarlaust. Má þar nefna mikinn fjölda eldra fólks og svo þá sem hafa arfgenga heyrnarskerðingu sem byrjar fyrr um ævina. Fólk í þáttum og bíómyndum á það til að muldra eða tala lágt og þá fer alveg fram hjá heyrnarskertum hvað verið er að segja. Ég er ein af þeim sem heyri svolítið illa þó svo að það sé ekki mjög áberandi og mér gengur oft illa að fylgjast með söguþræði í íslensku efni. Í raun finnst mér alveg óþolandi að íslenskt efni sé ekki textað. Ég skil ekki hvers vegna að það er ekki jafn sjálfsagt að texta íslenskt efni eins og erlent. Nú veit ég ekki hvort það sé einhver sértök ástæða fyrir því að þetta sé ekki gert en það væri mikið til bóta ef þeir sem hafa með þetta að gera tækju þetta til skoðunar.